fimmtudagur, október 19

Efnafræði

Maðurinn er api. Manneskjur eru bara apar. Hvað sem því líður er hægt að spekúlera aðeins í manninum.

Manneskjan er í grunvelli sínum ein, við erum öll einstaklingar. Við göngum okkar leið og í raun fær ekkert því breytt. Ákvarðanir eru teknar af persónulegum ástæðum, og enginn efast í raun um réttmæti þeirra. Hvað sem gerist í kringum okkur erum við lifandi einstaklingar og í það sem miklvægast er í þessu lífi fyrir fullvaxna einstaklinga er að geta verið sjálfum sér nægur. Félagsverur eins og við, mennirnir, reynum og erum sífellt í samskiptum við aðra einstaklinga. Tveir apar verða vinir. Tveir apar vinna saman, eru samstarfsapar. Tveir apar verða ástfangnir, og nú til dags, óháð kyni. Hvað er þessi tilfinning sem tengir okkur?

Tölum aðeins um vinskap. Ég, höfundur þessara spekúleringa, á marga góða vini. Vinir mínir eru þeir sem ég hef umgengist í nokkur ár og náð góðum tengslum og jarðbundnu sambandi við. Ég var t.d. í sama bekknum í 4 ár í MS, en úr því ævintýri stóð ég aðeins uppi með 3-4 góða vini. Það er mismunandi smekkur, lífshættir og annarskonar breytur sem valda þessu, og það er ekkert nýtt. Við köllum það persónuleika. Persónuleiki er að einhverju leiti meðfæddur, en hann er líka lærður og mótaður með tíma og verkefnum. Persónuleiki manns er það sem gerir hann að einstakann og gerir hvert okkar mismunandi. Manneskjan lifir á vinum. Vinir eru líka að einhverju leiti speglun á okkar eigin persónu. Sumir leita sér af vinum sem eru eins og þeir sjálfir vildu vera, hálfgerð alter-ego. Sumir halda sig við fólk sem er betra en það, fallegra eða gáfaðra, einfaldlega til að lyfta sér hærra. Og alltaf er til andstæða, sumt fólk umgengst fólk sem kann, veit og getur minna bara til að finnast það sterkara en það er. Svo ég hafi eftir honum Daniel Gildenlöw söngvaranum í Pains of Salvation, "I walk with the weakest just to feel strong!"

Erum við betri apar vegna vinskaps? Við erum betri apar vegna hæfni okkar til að finna til(þá er ég ekki að tala um skynfæri og skilningarvit.) Við hljótum þá að vera að mörgu leiti fullkominn. Skynfærin nema utanaðkomandi áreiti efna. Skilningarvitin taka á móti upplýsingum en við, heilinn og persónan okkar greinir og metur upplýsingar útfrá eigin reynslu.

Þegar ég tala um tilfinningar er á mörgu að taka og þessi skynfæraumræða er hundleiðinleg, þess vegna tek ég fram að ég er ekki að tala um okkar mat á því sem gerist fyrir utan líkamann. Ég er að tala um hita sem dreifist í ýmsar áttir innan líkamans en virðist ekki hafa neinar hömlur, líkt og sálin flýtur þessi orka um og stjórnar okkur. Þetta er allt bara efnafræði, flókin lífeðlisfræði, sem engin þarf að kunna til að lifa. Eina skilyrðið er að finna til.

Líkt og tvö efnasambönd hittast tvær persónur og ef að efni geta hvarfast breytast þau bæði, stundum varanlega. Þannig erum við mennirnir. Aðeins tilhugsunin getur breytt manni í svolitla stund. Þegar maður hugsar djúpt og reynir að setja þetta á blað, eins og ég, kemst maður að því að það er engin rökhugsun á bakvið tilfinningar, sérstaklega ekki ástina. Ástin er eiginlega bara sigur ímyndunaraflsins á rökhugsun, mætti segja. Því þessar tilfinningar gera mann brjálaðann, allir þekkja það, og það er alltaf einhver ástæða fyrir því. Ástæðan breytist, og breytist... og breytist.

Bless.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég verð nú bara að segja að það er alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt. Loksins blogg sem það er vit í að lesa. Keep it up!!!