miðvikudagur, nóvember 1

Nokkur ljóð

Spíta

Hey hérna hef ég handa þér spítu
"Hún er útötuð í einhverju hvítu!"
Oj,
á ég að berja þig.

Nefnt á tal

Ég heyri stundum nöfnin nefnd á tal
og sé þig stundum hlægja,
fyndið?
Í augnablik vill ræða um snúning heims.
Snúninginn sem er inní mér,
og
líkt og hjól snýst hugur minn
hring eftir hring
Líkt og bjalla fari af stað
Ding a Ling
Ég hálfpartinn í hnút,
hleyp af stað
í huganum,
kemst þó aldrei langt.


Vandræðalegt

Ég veit ekki afhverju lífið varð vandræðalegt,
það varla á mig yrti.
eins og vinur minn sagði, "þetta er hommalegt"
þegar hann sá Heiðar snyrti.

Dansiball

Margurinn fór á dansiball
kippti sér upp við ölið
aldeilis heljarinnar skrall
og eftir það helvítis bölið.

Kvenkynið hristir á sér flabb
og karlinn verður óður
Konurnar öskra "abbabbabb!!"
og vinurinn verður rjóður.

Hnakkinn hann mætti með hvíta spítu
og sannaði hvað í honum bjó
snéri sér að fallegri senjórítu
eins og rappari sagði "jó!"

Undirritaður aldeilis situr hér
og skrifar niður ljóðið
um ljóshærðann mann sem rúnkar sér
í flugvél.

Stebbi ég mana þig. Góða ferð.
Dömur mínar og herrar.

Ég hef ákveðið að skrifa ýkt kúl urban hetju sögu

Kafli 1.

Ich weiß nicht

Tunglið er í miklum ham þessa nótt. Tunglið og götuljósin endurspeglast saman í malbikinu og eymdin í þessu afskræmda hverfi tvöfaldast. Í óupplýstu húsasundi stendur undarlegur maður, grafkyrr og andar djúpt að sér. Vindurinn feikir ruslinu á götunni að honum og það safnast saman við fætur hans. Undur lífs virðast ekki koma honum við því kona með nýfætt barn labbar framhjá honum með losta í augum. Djúpsjávarblár er litur augna hans og hárið er brúnslegið en þó frekar ljóst. Húðin á andliti hans er krumpuð, ekki vegna aldurs, heldur vegna bruna sem hann fékk á yngri árum. Heimspeki kemur honum ekki við því hann veit allt, kann allt og hefur prófað allt, meira að segja þríbura. Hann er enginn venjulegur maður, hann er Þjóðverjinn. Eftir þriggja klukkustunda langt íhugunar maraþon er Þjóðverjinn truflaður. Það er grátandi gömul kona sem heldur á hunda ól. Þjóðverjinn í gríni ímyndar sér konuna með þessa ól á sér því andlitdrættir hennar minnti hann á hund sem vinur hans átti. En grínið lifði stutt því gamla konan byrjaði að öskra í þvílíku móðursýkiskasti,

"Þjóðverji, hjálpaðu mér. Vondir menn tóku hundinn minn hann Gunther.
HVAR ER GUNTHER, ÞJÓÐVERJI? HVAR ER GUNTHER!"


"ICH WEIß NICHT!!!" segir Þjóðverjinn og öskrar á konuna.

Aumingja gamla konan fellur algerlega saman við þetta og leggst í blautt malbikið og byrjar að kyrja nafnið El Lee Johnsen.

"El Lee Johnsen, El Lee, El Lee, El Lee Johnsen."

Þjóðverjinn, sem var byrjaður að labba í burtu hálf hissa á geðveikinni í gömlu konunni, kippist við. Þetta nafn merkir nefnilega bara eitt fyrir Þjóðverjanum. Ojá, bara eitt. Þjóðverjinn snýr höfði sínu hægt í hálfhring, horfir á konu greyjið, lyftir upp vinstri augabrún sinni og segir...

"Hefnd!!"

Hefnd er það sem kemur uppí huga Þjóðverjans þegar minnst er á El Lee Johnsen. El Lee, eða Elli, er náskyldur frændi hans Árna Johnsen. Hann er fæddur 1972, ári á undan Þjóðverjanum. Á sínum yngri árum voru Elli (El Lee) og Þjóðverjinn góðir vinir í blíðu og stríðu. Þeir léku sér með Uhu-lím, kveikjara bensín og allskonar hreinsiefni í góðri vináttu eins og hvert annað barn. Einn daginn gerðist þó dálítið sem átti eftir að hafa mikil áhrif á heiminn. Elli var nefnilega byrjaður að sína mikla og stórglæpamanns- og andfélagslegahegðun. Hann var byrjaður að kveikja í hundum og köttum, og átti það meira segja til að kveikja í gömlu fólki. Þjóðverjinn var ekki par sáttur við þetta og ákvað að stoppa leikinn einn daginn.

"Elli, ef þú kveikir í öðrum ketti er ég hættur að vera vinur þinn."

Elli réði ekki við bræði sína og kastaði mólotóv-kokteil í andlit Þjóðverjans.

"Aaaaaaaaaaaaah, AHHHHHHHHHHHHHHH..." sagði þjóverjinn og hlaup um allt með logandi eldhnött í andlitinu.

Næsta sem Þjóðverjinn man er 4 vikna sjúkrahúslega og fjórar langar lýtaaðgerðir. Þjóðverjinn hefur verið í vígahug síðan, en nú er komið að því. Nú hefur hann loksins fundið hann.


34343434343434343444444444444433333333


KAFLI 2 kemur á morgun....

miðvikudagur, október 25

Fílar

Ég dottaði í augnablik fyrir stuttu síðan, í kringum 12 leitið. Rétt áður en ég fór í hádegismat. Í þessu daglega dotti byrjaði hausinn á mér að hugsa, mig fór að dreyma. Dagdraumar í einfaldleika sínum krydda mitt líf, og vonandi þitt.

Í þessum dagdraumi var ég labbandi niður Ármúlann, þar sem ég vinn, og er á leiðinni á Brautarstöðina í matarhlé. Ekkert skrítið við það, fyrir utan það að ég borða þar bara helst ekki. Það skrítnasta var að ég var með FÍL í bandi og var svona að skipa honum að drífa sig, "Hættu þessu slóri!" og togaði í bandið. Fíllinn vældi eitthvað og hljóp af stað með mér. Þegar inn á Brautarstöðina var komið, settist fíllinn við borð og ég fór og pantaði tvö hamborgaratilboð, "...tómatsósu með mínum frönskum en kokteil fyrir fílinn."

Eftir vondann hamborgara reið ég fílnum inní sólarlagið.


Ég skyndilega opna augun, þó þreyttur sé, því prentarinn sem ég vinn með pípti. PÍÍÍÍP!


Hugleiðing


  1. Afhverju fíll?

  2. Til hvers fíll?

  3. Eru fílar með eyru?

  4. Er stofn fíla í heiminum í góðu ástandi?

  5. Er það dúmbó og öðrum teiknimyndafílum að þakka?

  6. Er orðið fíll dregið af fífl? Eða öfugt?

Svörin við þessum spurningum eru eftirfarandi.



  1. Fílar (Elephantidae), í sakleysi sínu, eru mögnuð dýr. Þau eru tignarleg, gáfuð og láta ekki vaða yfir sig. Fíllinn telst í þrjár tegundir innan ættkvíslar sinnar, en áður voru 15 eða fleirri tegundir fíla ráfandi um jörðina. Þessar þrjár tegundir eru; Afríski Runnafíllinn, Afríski Skógarfílinn og Asíski Fíllinn. Ástæðan fyrir því að mig dreymdi fíl er líklega vegna þess að í draumaráðningum er talað um fíla sem styrkleika, gáfur og kraft. Og það breytist allt þegar ég settist á hann og reið honum, því að ríða fíl þýðir einfaldlega að maður sé í algerri sjálfsstjórn.

  2. Fílar eru ekki notaðir í neinn annan tilgang en til flutninga, svo ég viti til.

  3. Já. Fílar eru með eyru. Ég fýla það að fílar séu að fýla að vera með eyru. Ég fýla fýluna sem kemur af fílum þegar þeir fýla að vera í fýlunni sem kemur af eyrunum sem þeir fýla.

  4. Því miður er fílinn í mikilli útrýmingarhættu vegna iðnaðar og annarskonar hættu. Fíla kúkur er mjög vinsæll terímítamatur og hafa fílar þess vegna verið drepnir sífellt meira vegna þess.

  5. Dúmbó er án djók tilgangslaust dýr, drepum hann.

  6. Nei.

Allir sem lesa þetta...

...eiga að mæta á Dillon í kvöld. Hljómsveitin mín, Perla, er að spila þar klukkan 9 ásamt Coral. Ókeypis inn og fullt af fjöri.

þriðjudagur, október 24

Fullkomið

Hérna er smásagan,
Vísbending um Guð.

"Þetta er fullkomið," segir maðurinn og glottir í fallegri von. Í hans þversagnakenndu tilvist lifir trú um fullkomnun. Hann trúir því að eitthvað svo fallegt, svo yndislegt, gæti ekki verið fullkomnara á neinn hátt. Ofurtrú og traust náungans er hans lifibrauð í dag og verður það á morgun. Ekkert virðist skýra línurnar betur, fyrir honum, um tilgang okkar hér á jörð en þessi fegurð.

"Ég trúi á þig, ég trúi að ég elski þig, Guð."
Rödd þessi heyrist og glymur um hauskúpur í hvítum einturna samkomuhúsum, fullum af lömbum. Lömb þessi fóru þá heilögu leið að taka sér Guð og hans son sem leiðarljós lífs síns. Lífið er eftir þeirra orðum. Þeirra orð er lífið. Ef ég er sá eini sem telur það heimskulegt að taka heimspeki úr gamalli bók og lifa eftir henni, er ég einn um eitt til viðbótar. Einn í lífinu.
Biblían ætti að hafa fyrirvara á upphafsíðum sínum, fyrirvara um skáldskap.
Reiðin rís eins og fjallgarður úr sandlausri strönd.
"...meikar eitthvað sens?"

Stór karlmaður í gulu veiðivesti, sem lyktar af fiski, spyr mig; "Hvað er þá Guð fyrir þér?" Ég velti fyrir mér lyktinni, opna gluggann og svara; "Guð fyrir mér er eins og apinn BóBó.
Hann sat í sínu búri alla sína ævi, sagði alltaf það sama og gaf sömu gjafirnar."
Með þessu meinti undirskrifaður ekkert illt enda á Apinn BóBó stóran hluta í hjarta flestra nýfullorðna og unglinga. Apinn BóBó er klisja, eins og orðið Guð.
Veiðivestið hreyfðist og eigandinn með; "Hverskonar vitleysa er að vella uppúr þér? Varstu alinn upp af heiðnum úlfum í útlegð? Hvað hefur komið yfir þig?"

Um leið og fiskifýlan sleppti af sér síðasta orðinu, labbaði ég út. Sæll og glaður.

-----------------------------------------

Þetta var nú aldeilis gaman.

Ég bið bara heilsa og vil þakka öllum mínum vinum sem mættu á Jezebel á Laugardaginn, gaman að sjá að fólk hefur áhuga á tónlistinni minni. Nú er bara að mæta á tónleikana á Miðvikudaginn. Þá er Perla að spila á Dillon.

Sjáumst.

föstudagur, október 20

Geimsteinar

Orð

Sum orð eru merkilegri en önnur.
Sum orð eru merkilegri en
heimsins dýrmætustu
geimsteinar.
Sum orð eru falin í draumi,
og finnast ei von bráðar.

Von er ekkert
nema fjarlægur draumur.
Fjarlægur, vakandi,
draumur.
Á lífi.

Hvað ef við erum,
vonandi á lífi,
í annars manns draumi.
Því þeir sem dreyma,
vakandi á daginn,
hafa vitund um orðin
sem breyta,
öllu.

Þetta var smá ljóðabútur handa ykkur. Mér finnst stundum kjánalegt hvað ég pæli mikið, og hvað ég get verið listrænn. Ég er þó ekki að þykjast vera það sem ég er ekki, það er ekki sexy.

Sexy, a.k.a. kynþokki, er eitthvað sem ekki allir hafa og ef maður pælir í því þá er kynþokki eitthvað það merkilegasta sem gerist í sambandi manneskja. Nú verð ég að tala um þetta í víðara samhengi, svo samkynhneigðir taki því ekki illa. En ef manneskja virkar sexy á aðra manneskju er voðinn vís, því eftir allt erum við mennirnir veiðimenn. Veiðimenn vilja fá það sem þeir girnast strax og helst í gær. Þegar veiðimenn hafa lokið sér af með bráðinni er, nánast undantekningarlaust, bráðin skilin eftir og athyglin komin á næstu bráð.
Kvenmenn aftur á móti eru safnarar og vilja eigna sér allt sem þær sjá. Kvenmenn leita sér af karlmönnum eins og þær leita sér af fötum. Og hvað skiptir mestu máli í fatakaupum.
  1. Fegurð (Módelstrákar með Zoolander-bros)
  2. Tíska (Töffarar)
  3. Þægindi (Persónuleiki)
  4. Ending (Í öllu sem það á við; þolinmæði, sambönd, kynlíf)
  5. Verð (skiptir eiginlega engu í flestum tilfellum)

(ath. þetta er ekki endanlegt og á ekki um alla kvenmenn)

Þannig að ef ég er flík, þá er ég Kraftgalli. Því ekki er ég undirfatamódel, ekki þyki ég vera þessi eitursvalui gaur, ég er þægilegur í kulda og ég endist að eilífu. :) Kraftgallinn Hilmir. Vinur okkar hann Drab Tipp, nei ég meina Brad Pitt er eins og pallíettukjóll frá 1977.

Munurinn á kvenmönnum og karlmönnum sambandi við kynlíf er að kvenmenn þurfa að vita afhverju, þær þurfa ástæðu, en karlmenn þurfa bara stað og tíma.

En hvers vegna er kynþokkinn svona yfir aðrar hneigðir hafinn? Ég held að það sé einfaldlega vegna nánar tengingar við kynlíf og því sem því fylgir. Tilhugsunin um kynlíf, tilhlökkunin og óstjórnlega greddan er eitthvað sem allar vel virkar kynverur þekkja. Þess vegna eru kvenmenn í lykilstöðu, ef þær hafa kynþokka. Kynþokkafullir kvenmenn geta gert allt, ef þær yfirhöfuð nýta sér þessa guðsgjöf. Þetta er svona eins og að þekkja Davíð Oddsson fyrir karla.

Ég er á þeirri skoðun að 3 hlutir hafi, kynþokkalega séð, mestu áhrifin á mig við kvenmenn.

  1. Sjálfstraust
  2. Persóna
  3. Fegurð

Núna veit ég hvernig konuninni í Sex and the city leið. Það er kjánalegt að skrifa svona hugleiðingar.

Ég vil bara enda á að egja ykkur eitt.

LÍFIÐ ER KYNSJÚKDÓMUR. :D

Ég sé sjálfan mig

Hafið þið lent í því að sjá ykkur sjálf í annari manneskju? Það hef ég, og það er ótrúlega skrítin tilfinning. Eins og að horfa á dramatískt slow-motion atriði úr Baywatch aftur og aftur.

Er ég á radar?
Bíp
Hvar á ég að leita?
Bíp
Minn radar hefur eina gráðu.
Bíp
Sú gráða er hjá þér.
Bíp
Hljóðið er hjá þér
Bíp

Stundum líður mér eins og ég sé radar, flugvélaradarmælir. Hvað sem ég geri finnst mér það allt vera eins og leit. Þetta er eins konar blind leit, ég er með lokuð augun. Ég stend fastur á sama stað með lokuð augun og gef frá mér hljóðlaust bíp og bíð eftir svari, en sem komið er hef ég ekki fengið mikið af svörum. Kannski er ég bara of kröfuharður á eigin drauma, ég get ekki búist við því að allt rætist.

Það sem fékk ekki nafn

Kaldur vetravindur blæs
á mig, með þig.
Hvernig eiginlega er það
má það, kann ég það.
Það ræsist upp hvelfing
af frosnum blómum,
og veturinn kallar á þig.

Það sem fýkur í vindinum
kalt og brothætt
blátt, hvítt og grátt.
Eins og þú er það
hreinlega það
sem fékk ekki nafn,
og fær ekki nafn.

Óskið mér góðrar göngu, ég þarfnast hennar...

fimmtudagur, október 19

Efnafræði

Maðurinn er api. Manneskjur eru bara apar. Hvað sem því líður er hægt að spekúlera aðeins í manninum.

Manneskjan er í grunvelli sínum ein, við erum öll einstaklingar. Við göngum okkar leið og í raun fær ekkert því breytt. Ákvarðanir eru teknar af persónulegum ástæðum, og enginn efast í raun um réttmæti þeirra. Hvað sem gerist í kringum okkur erum við lifandi einstaklingar og í það sem miklvægast er í þessu lífi fyrir fullvaxna einstaklinga er að geta verið sjálfum sér nægur. Félagsverur eins og við, mennirnir, reynum og erum sífellt í samskiptum við aðra einstaklinga. Tveir apar verða vinir. Tveir apar vinna saman, eru samstarfsapar. Tveir apar verða ástfangnir, og nú til dags, óháð kyni. Hvað er þessi tilfinning sem tengir okkur?

Tölum aðeins um vinskap. Ég, höfundur þessara spekúleringa, á marga góða vini. Vinir mínir eru þeir sem ég hef umgengist í nokkur ár og náð góðum tengslum og jarðbundnu sambandi við. Ég var t.d. í sama bekknum í 4 ár í MS, en úr því ævintýri stóð ég aðeins uppi með 3-4 góða vini. Það er mismunandi smekkur, lífshættir og annarskonar breytur sem valda þessu, og það er ekkert nýtt. Við köllum það persónuleika. Persónuleiki er að einhverju leiti meðfæddur, en hann er líka lærður og mótaður með tíma og verkefnum. Persónuleiki manns er það sem gerir hann að einstakann og gerir hvert okkar mismunandi. Manneskjan lifir á vinum. Vinir eru líka að einhverju leiti speglun á okkar eigin persónu. Sumir leita sér af vinum sem eru eins og þeir sjálfir vildu vera, hálfgerð alter-ego. Sumir halda sig við fólk sem er betra en það, fallegra eða gáfaðra, einfaldlega til að lyfta sér hærra. Og alltaf er til andstæða, sumt fólk umgengst fólk sem kann, veit og getur minna bara til að finnast það sterkara en það er. Svo ég hafi eftir honum Daniel Gildenlöw söngvaranum í Pains of Salvation, "I walk with the weakest just to feel strong!"

Erum við betri apar vegna vinskaps? Við erum betri apar vegna hæfni okkar til að finna til(þá er ég ekki að tala um skynfæri og skilningarvit.) Við hljótum þá að vera að mörgu leiti fullkominn. Skynfærin nema utanaðkomandi áreiti efna. Skilningarvitin taka á móti upplýsingum en við, heilinn og persónan okkar greinir og metur upplýsingar útfrá eigin reynslu.

Þegar ég tala um tilfinningar er á mörgu að taka og þessi skynfæraumræða er hundleiðinleg, þess vegna tek ég fram að ég er ekki að tala um okkar mat á því sem gerist fyrir utan líkamann. Ég er að tala um hita sem dreifist í ýmsar áttir innan líkamans en virðist ekki hafa neinar hömlur, líkt og sálin flýtur þessi orka um og stjórnar okkur. Þetta er allt bara efnafræði, flókin lífeðlisfræði, sem engin þarf að kunna til að lifa. Eina skilyrðið er að finna til.

Líkt og tvö efnasambönd hittast tvær persónur og ef að efni geta hvarfast breytast þau bæði, stundum varanlega. Þannig erum við mennirnir. Aðeins tilhugsunin getur breytt manni í svolitla stund. Þegar maður hugsar djúpt og reynir að setja þetta á blað, eins og ég, kemst maður að því að það er engin rökhugsun á bakvið tilfinningar, sérstaklega ekki ástina. Ástin er eiginlega bara sigur ímyndunaraflsins á rökhugsun, mætti segja. Því þessar tilfinningar gera mann brjálaðann, allir þekkja það, og það er alltaf einhver ástæða fyrir því. Ástæðan breytist, og breytist... og breytist.

Bless.

miðvikudagur, október 18

Vandamál eða verkefni?

Vandamál?

Ef að enginn fiskur er spendýr á meðan sum spendýr lifa í sjónum, fylgir það náttúrulega eftir að sum dýr sem lifa í sjónum eru ekki fiskar. Ef að allir fiskar í sjónum deyja og skilja eftir spendýrin, verða spendýr þá fiskar? Eða deyr nafnið, hugmyndin og heimspekin með dýrinu?

Ef ég finn til með einhverjum sem finnur til. Finnur þá finnur til?

Þetta er eitthvað til að hugsa um með kaffinu.

Smá um mig

Nóg um það og meira um mig. Ég er búinn að vera í hálfgerðu rugli undanfarið, var að byrja í nýrri vinnu, er að fara að spila á stóóórum tónleikum og mér líður hálf undarlega. Vinnan krefst þess af manni að maður sýni henni 100% athygli. Ég er að taka yfir heila deild í þessu fyrirtæki, skrifstofan mín er 150 fm :)

Jezebel er síðan að spila á Airwaves Laugardaginn 21. okt klukkan 8. Allir að mæta, s.s. ef þeir tíma því. Þeir sem tíma því ekki eru nískupúkar og aumingjar, skv. kenningum Karl Marx.

Ég held að eina lausnin fyrir mig sé að skipuleggja tíman minn svo vel að klósettferðir verði fyrirfram ákveðnar. Það eða að ég fái mér kærustu, þær eru á afslætti þessa dagana og ég ætti eiginlega að næla mér í eina. Vandamálið er í mestafalli miðlungs, hár rekstrarkostnaður og þessu fylgir náttúrulega ábyrgð og mikil athylgi (sérstaklega á kvöldin.) Spurning hvort það sé málið? Látið mig vita ef þið þekkið einhverjar fegurðardísir sem fýla myndarlega menn.

Bipolar Disorder er ekki vandamál, heldur verkefni.

Hvalveiðar

Íslendingar eru víst byrjaðir að veiða hvali hægri, vinstri. Ég fýla það að menn hér taki bara ákvörðun og láti sig ekki varða um heimsálit. BBC fjallar um þetta mál, http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/6059564.stm. Ég borðaði einmitt hrefnukjöt um daginn og það var bara æði.

Hetja, Hilmir

Dang it, http://barnaland.is/barn/13933/
Þessi nafni minn á erfitt. Sendum honum góða strauma.

Ég var að tjekka á nafninu mínu á google, og rakst á heimasíðuna hjá þessari litlu hetju.
Rakst líka á þetta :
Skv. þessu riti yfir fjölda þeirra sem skírðir voru Hilmir, eftir árum, er ég sá eini árið 1986. Ekki skrítið, því ég er sérstakur að öllu leiti. En svo þegar við skoðum þetta rit sjáum við að 13 dagurinn í mánuðinum, ég er fæddur 13, er vinsælastur. Enda er fólk að skíra börnin sín í höfuðið á mér í gríð og erg. Ég þyki víst góð fyrirmynd, kynþokkafullur en um leið ólgandi hafstraumur af visku og mikilvægi.

Gaman.

Þeir sem vilja vita merkinguna á bakvið nafnið mitt lesa eftirfarandi.

  • Nafn þetta er skylt færeyska orðinu "hilmir" sem merkir höfðingi og íslenska orðinu "hjálmur" og þýðir nafnið sá sem ber hjálm. (mannanofn.com)
  • Hilmir þýðir þ.a.l. konungur því það var maðurinn sem bar hjálminn.
  • Hilmir er skrítið nafn og leikur vel við tungu, sérstaklega í kynlífi. Það er nefnilega hægt að anda nafninu mínu.
  • Það er gert með því að hvísla nafnið mitt og anda út á sama tíma.
  • Þriðja Lord of the Rings myndin heitir 'Hilmir snýr heim' eða 'Return of the King'

N

þriðjudagur, október 17

Heimurinn

Heimurinn úr geiminum
Ætli það sé hægt að troða heiminum
í litla glerkúlu, sitjand'í geiminum
Hrista allt það vonda og ljóta út
eða fela það í afagömlum snítiklút.

Stundum langar mig að taka heiminn og troða honum í litla glerkúlu. Stærðin skiptir ekki máli en ég þyrfti að geta haldið á henni. Ég myndi hrista kúluna, heiminn, í trú um það að um leið og ég drægi heiminn aftur í rétta stærð, útur kúlunni, myndi hann lýta öðruvísi út og ýmsir hlutir væru öðruvísi. Hvaða hlutir spyrja menn? Ég er að tala um svona hluti og aðstæður sem fá mann til að segja við sjálfan sig og aðra, "svona er þetta bara!" Það er svo andskoti rangt í sumum tilfellum.

Mig langar í ýmislegt en það eins og sumt annað er bara hugsun og fer ekki lengra.